Það situr maður með rauða derhúfu niðursokkinn við skrif í horni farfuglaheimilsins Akureyri Backpackers. Umkringdur skvaldri, glamri í hnífapörum og hlátri af næstu borðum situr hann einbeittur. Fátt raskar ró rithöfundarins Arnars Más Arngrímssonar, sem nýverið hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína Sölvasögu unglings.
„Líkt og Sölvi er ég svolítið eirðarlaus og á erfitt með að vinna heima. Því finnst mér gott að skrifa á kaffihúsum innan um klið og tónlist.“
Arnar er fæddur og uppalinn á Akureyri. Upp úr tvítugu tóku við ár í Reykjavík og Þýskalandi.
Fyrir sunnan stundaði Arnar nám við háskólann í íslensku og þýsku sem síðar leiddi af sér störf við þýðingar. Upp undir þrítugt fór Arnar í nám í kennslufræði. Að námi loknu fluttist hann aftur norður á heimaslóðirnar þar sem hann hóf störf við íslenskukennslu í Menntaskólanum á Akureyri. Arnar segist alltaf hafa haft áhuga á bókmenntum og að þörfin fyrir að skrifa hafi blundað í sér frá unga aldri. Það var þó ekki fyrr en í tveggja ára kennsluhléi úti í Madrid, á árunum 2007-2009, sem hann fann áhuganum farveg. Í nokkur ár setti hann saman smásögur og skrifaði greinar í blöðin. Eitt sumarið fékk hann svo hugmyndina að fyrstu bók sinni, Sölvasögu unglings.
„Það var bara ein sena, síðan leiddi eitt af öðru. Ég skrifaði þetta í belg og biðu og sagan fæddist smám saman.“
Í framhaldinu tók við þriggja ára vinna að bókinni. Arnar segir það hafa komið sér á óvart hvað allt gekk vel þegar unnið var með skýr markmið og sögu sem vildi út. Tími unglingsáranna hefur honum lengi verið hugleikinn. Sölvasaga unglings fjallar um unglinginn Sölva sem lifir og hrærist í heimi samskiptamiðla í neyslusamfélagi Reykjavíkur. Sölvi er sendur í sveit til ömmu sinnar á meðan foreldrarnir redda fjárhagnum. Þar dvelur hann í gömlu herbergi pabba síns, sem ekkert hefur breyst frá árinu 1985. Þannig er fortíð og nútíð teflt saman í sögunni um Sölva. En hvort er betra að vera unglingur í dag eða á níunda áratug seinustu aldar? Arnar segir að í neyslusamfélagi samtímans sé sífelld krafa um tækninýjungar og gleði. Búið sé að fjárfesta svo mikið í tækni, bæði í tíma og peningum talið, að erfitt sé að viðurkenna að við séum á villigötum.
„Ég er sannfærður um að einfalt líf sé gott líf. Raunveruleg samskipti og góð tengsl við náttúruna, fortíðina og kynslóðirnar skipta mjög miklu máli. Ég tel að við séum á villigötum með þessa hluti.“
Aðspurður um hvort hann hafi sjálfur verið sendur í sveit sem unglingur þá svarar Arnar því neitandi. Sú hefð að senda börn í sveit var að líða undir lok þegar hann var að alast upp. Hans sveit var kannski sú að vera sendur á sjó sautján ára og þurfa að rísa undir væntingum í erfiðum og krefjandi aðstæðum þar. Arnar segist þó ekki fyllast neinni rómantík yfir því þegar börn voru send á sjó eða í aðra þrælkun um tólf ára aldur. Hins vegar er skóli í dag ekki málið fyrir alla. Að mati Arnars eru íslenskir skólar of einsleitir og það skortir úrræði fyrir drengi eins og Sölva. Ef illa gengur í grunnskólanum þá halda börnin samt sem áður áfram á næsta stig sem er framhaldsskóli og sagan heldur áfram þar.

Rithöfundurinn Arnar Már Arngrímsson skrifaði stóran hluta bókarinnar Sölvasögu unglings á Akureyri Backpackers.
Talið færist aftur að bókinni. Hvaða þýðingu ætli verðlaun Norðurlandaráðs hafi fyrir hann sem rithöfund? Arnar segir bók sína hafa týnst í jólabókaflóðinu í fyrra. Jafnvel þó svo að hann hafi verið duglegur að kynna bókina og að hún hafi mælst vel fyrir þá vissu ekki margir af henni. Slíkt er magnið af bókum mánuði fyrir jólin. Í kjölfar verðlaunanna verður bókin þýdd á önnur tungumál, honum verður boðið að lesa upp víðar og bókin fær athygli. Þá kviknar sú spurning hvort framhald sé á á leiðinni? Arnar svarar játandi: „Það var aldrei meiningin en síðan bara varð þetta það sem mig langaði að skrifa um.“ En ætli það sé erfiðara að skrifa bók eftir að hafa hlotið hin virðulegu verðlaun Norðurlandaráðs? Arnar svarar á þann veg að skriftirnar séu í raun alltaf glíma. Hins vegar sé það óneitanlega einkennileg tilhugsun að í fyrra beið enginn eftir bókinni en nú verður fólk tilbúið með gagnrýnina á lofti. Hann bætir við að gagnrýni í dag geti verið svolítið óvægin, hann sé þó með það harðan skráp að slíkt trufli sig ekki. Arnar biður þó um að gagrýnendur lesi bókina og eyði tíma í að skrifa um hana. Honum hugnast ekki stjörnugjöf og hraðafgreiðsla á verkum sem rithöfundar og aðrir listamenn hafa varið miklum tíma í að skapa.
Ætli rithöfundurinn sé með heilræði fyrir fólk sem dreymir um að feta sama veg og hann? Arnar segir það vera fyrsta skref að átta sig á því hvar hæfileikarnir liggja, innan hvaða sviðs bókmennta. „Það að segjast hafa áhuga á að verða rithöfundur er alltof almennt. Nauðsynlegt er að finna sína eigin rödd.“ Hann bætir við að það skili ekki góðu verki að skrifa um heim sem sé viðkomandi framandi og sem hann hafi jafnvel ekki áhuga á. Mikilvægt er að finna eldmóðinn. Eins verður bók ekki til í tómi að hans sögn. Í upphafi er gott að koma einhverju á blað án þess að ofhugsa. Síðan þarf að liggja yfir textanum aftur og aftur. Í framhaldinu þarf að bera textann undir fólk sem viðkomandi treystir, fá ráð og stuðning.
„Þú ert með eitthvað sem er rosalega óburðugt. Það sem skilur á milli þess sem gefur út vel heppnaða bók og þess sem gerir það ekki er tíminn og eljan sem fer í að betrumbæta.“
Arnar segir að það gangi ekki að skrifa í einveru í tvö ár, án þess að sýna neinum og vonast svo eftir að textinn sé meistaraverk. Það séu bara draumórar. Hann segir mikla vinnu liggja á bak við hvert einasta orð og hverja einustu setningu. Uppáhalds tilvitnunin hans er eftir bandaríska rithöfundinn Phillip Roth, sem einnig var beðinn um álíka ráð, en hann sagði einfaldlega: