Jólasýning Minjasafnins á Akureyri: „Skapar spjall milli kynslóða“

Það er ævintýralegt að rölta um innbæinn á fallegum vetrardegi. Gömlu timburhúsin eru hvað krúttlegust að vetri til, umvafin nýföllnum snjó með pastel litaðan himininn í baksýn. Umhverfið líkist póstkorti og andi liðinna jóla kemst á kreik. Undanfarin ár hefur Minjasafnið á Akureyri verið með jólasýningu á aðventunni. Þar gefst safngestum kostur á að öðlast innsýn í gamlar jólahefðir sem margar hverjar hafa breyst talsvert á undanförnum áratugum í takt við breytt lífsskilyrði. Gúttó heimsótti Minjasafnið á dögunum og hvarf þar aftur í tímann undir dyggri leiðsögn Rögnu Gestsdóttur, safnfræðslufulltrúa. 

Innbærinn líkist póstkorti á fögrum vetrardegi. 

Innbærinn líkist póstkorti á fögrum vetrardegi. 

„Þetta er fjórða jólasýningin. Við vinnum mikið með jólasveinana og notum þá til að fjalla um jólaundirbúninginn í gamla daga. Fyrsta árið voru þeir 82 en síðan þá hefur bæst í hópinn og nú eru þeir orðnir 89 talsins.“ 
 

Megin áhersla er lögð á tímabilið í lok 19. aldar. Torfbærinn, baðstofan og lífið í þá daga, áður en nútíminn gekk í garð. Jólasveinarnir koma þar mikið við sögu því þeir voru að angra fólk við verkin. Jólasveinar eins og Faldafeykir, Flórsleikir, Lampaskuggi, Kleinusnýkir og Flotsokka komu oft til byggða hér áður fyrr. En nú hafa þau ekki mikið hingað að sækja. Það er til dæmis ekki mikið um flór á Akureyri fyrir Flórsleiki. Þessir þrettán sem slysast hingað ennþá, við þekkjum þá betur. Ragna segir að stór hluti sýningarinnar sé snertisýning. Heill veggur er til dæmis tileinkaður baðstofunni. Þar er að finna ask, snældur og annað sem tengdist daglegu lífi á 19. öldinni. 

Minimalískur lífsstíll?

Minimalískur lífsstíll?

Árlega er unnið með ákveðið þema. Fyrsta árið var lögð áhersla á jólatré, annað árið voru það skógjafir, það þriðja voru til sýnis dagatöl en í ár er það jólaskraut. Þrátt fyrir breytileg þemu eru alltaf einhverjir munir úr fyrri sýningum sem nýttir eru áfram í bland við þá sem bætast við, annað hvort úr safneign eða frá fólki úti í bæ. Það getur verið vandasamt fyrir safnið að verða sér úti um muni tengda jólunum, vegna þess að jólaskraut er nokkuð sem fólk losar sig síður við. Fólk vill  nota gamla skrautið frá ömmu og afa sem vekur upp ljúfar minningar liðinna jóla. Ragna segir að sögur fólks, í kringum þá muni sem safninu berast, vera afar fallegar og áhugaverðar. 

„Hvernig systkini skiptust á að opna glugga í pínulitlu dagatali. Jól eftir jól, sömu myndirnar, en alltaf jafn spennandi. Það skipti ekki máli hvað var í gluggunum, heldur fólst mesta spennan í að opna þá og þar með stytta biðina til jóla.“
 

Jóladagatal í stærra lagi.

Jóladagatal í stærra lagi.

Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi Minjasafnsins á Akureyri.

Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi Minjasafnsins á Akureyri.

Á 20. öldinni þróuðust jólasiðirnir hratt. Við undirbúning sýningarinnar verður Rögnu það iðulega ljóst hvað skrautið er í rauninni allt nýlegt. „Manni finnst eins og siðirnir séu eldri en þeir eru í raun og veru, til dæmis með skógjafirnar. Þær verða þó ekki algengar fyrr en í kringum árið 1980.“ Skógjafir þekktust þó á sumum heimilum töluvert fyrr, þá helst í kaupstöðum. Eftir að vistun barna á dagheimilum varð algengari dreifðist siðurinn og festist í sessi. „Áður fyrr var lítið um samanburð barna á meðal en nú eru allir í sama pakka.“ 

Athafnamaðurinn Gunnar Ásgeirsson, ættaður úr Önundarfirði, flutti inn fyrstu aðventuljósin til Íslands frá Svíþjóð í kringum árið 1964. Hugmyndin um ljósin sjö er komin úr Gamla testamentinu og þótti mikill helgidómur. Þar var ljósastikan lárétt og ekki á almannafæri. 

Athafnamaðurinn Gunnar Ásgeirsson, ættaður úr Önundarfirði, flutti inn fyrstu aðventuljósin til Íslands frá Svíþjóð í kringum árið 1964. Hugmyndin um ljósin sjö er komin úr Gamla testamentinu og þótti mikill helgidómur. Þar var ljósastikan lárétt og ekki á almannafæri. 

Rögnu þykir gaman að sjá hvernig safngestir tengja oft við eitthvert eitt tiltekið skraut, benda og segja: „Þetta þarna, svona var heima hjá mér“. Þannig geta jólin fyrr og nú leynst í einni kúlu. Aðspurð hvort eldra fólk hafi ekki gaman að sýningunni, svarar Ragna játandi. Hún bætir þó við að fæst fólk af eldri kynslóðinni hafi upplifað baðstofulífið, því tími torfkofanna fjarlægist óðfluga. Algengt er að ömmur og afar skoði sýninguna ásamt barnabörnum sínum. Þá þykir Rögnu gaman að sjá hvað sýningin skapar mikið spjall milli kynslóða. Börnin þekkja ýmsa jólasveina og þá rifjar eldra fólkið upp þegar það sá jólasvein í búðarglugga og það var kannski eina jólaskrautið í bænum. Ragna bendir á gamlan stól í einu horninu og segir að þar sé gestum velkomið að setjast og prjóna.

„Ef þú varst hyskin við verkin og skyldir eftir hálfprjónaðan sokk þá gat Flotsokka komið og stolið honum. Þá bar hún í sokknum flot sem hún stal líka. Þannig var Flotsokka skæð því hún bæði stal dagsverkinu og matnum.“
 

Rögnu þykir ánægjulegt að sjá þegar ömmur og afar sýna barnabörnum og jafnvel barna-barnabörnum handtökin við að prjóna. Þó koma einnig börn sem sýna hæfileika sína á þessu sviði. En er heimsókn á jólasýningu Minjasafnsins farin að festa sig í sessi sem liður í aðventunni hjá fjölskyldum í bænum? „Jú, sá hópur fer stækkandi. Fólk hefur gaman af því að ganga hérna inn og sjá hvað hefur bæst við en líka að ganga að ýmsu vísu.“ Ragna bætir kankvís við að börnin séu einnig dugleg að draga foreldrana með sér. Þannig er safnið í rauninni með kynningarfulltrúa inni á mörgum heimilum bæjarins. 

 

 

Fyrir marga geta jólin fyrr og nú leynst í einni kúlu. 

Við röltum nokkrum þrepum neðar. „Hér niðri er þetta í raun allsherjar snertisýning. Hægt er að opna krukkur og giska á hvaða innihald tilheyrir hvaða jólasveini. Hér er öllum skilningarvitum beitt.“ Þá borgar sig að renna yfir listann endalausa af jólasveinum. „Við höfum heyrt mörg nöfn en vitum oft ekki endilega hvað þeir gerðu. Sumir þeirra eru orðnir svo gamlir að aðeins nöfnin hafa varðveist.“ Ég rek augun í nafnið Lungnaslettir og ygla mig. Ragna hlær og segir það vera alveg skýrt hvað Lungnaslettir gerði. „Ég bíð alltaf eftir símhringingu frá brjáluðum foreldrum því maður veit ekki alltaf hvað má ganga langt. Við fáum líka mikið af unglingum í heimsókn og þeir hafa gaman að þessu.“ Varúð - Ekki fyrir viðkvæma! Ef fólk var latt við vinnu þá kom Lungnaslettir og barði það með blautum lungum svo draup úr þeim. Ef heimilisfólk heyrði dropahljóð í torfkofanum þá vissi það að Lungnaslettir væri á ferðinni. Þarna er líka minnst á jólasveinana Reykjasvelg og Kjötkrók sem nota báðir strompa við sína iðju. Reykjasvelgur sogar í sig reykinn en óljóst er hvers vegna. „Kjötkrókur fær þó meira út úr þessu.“ Stundum runnu frásagnir af jólasveinum saman. Ragna las að í sumum sveitum væri Reykjasvelgur einnig með lungun lafandi útúr sér. „Þetta er algengara minni en ég hafði áður haldið.“ En sjón er sögu ríkari og því ættu sem flestir að gera sér ferð í Minjasafnið og fræðast um þessi einkennilegu börn Grýlu og Leppalúða. 

Hægt er að opna krukkur og giska á hvaða innihald tilheyrir hvaða jólasveini. Skilningarvitin virkjuð. 

Hægt er að opna krukkur og giska á hvaða innihald tilheyrir hvaða jólasveini. Skilningarvitin virkjuð. 

Gúttó þakkar Rögnu kærlega fyrir leiðsögnina um jólasýningu Minjasafnsins. Sýningin verður uppi til 12. febrúar árið 2017. Safnið er opið daglega yfir vetrartímann kl. 13-16.
(Lokað 24.-25. des. og 1. jan.).

Heimagerð kirkja skorin úr einangrunarplasti. Hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir. 

Heimagerð kirkja skorin úr einangrunarplasti. Hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir. 

Stafir jólasveinanna. Hver ætli eigi hvaða staf?

Stafir jólasveinanna. Hver ætli eigi hvaða staf?