Stúfur: Fer í taugarnar á Grýlu

Gúttó hitti Stúf í Samkomuhúsinu og fékk að spyrja hann nokkurra spurninga um lífið og tilveruna. 

Hvernig er að vera yngstur jólasveinanna?
Mér finnst ágætt að vera yngstur.  Samt lendi ég kannski svolítið undir, því ég er líka minnstur. Þess vegna ákvað ég að hefja sóló feril og fara í leikhús í fyrsta skiptið. Ég hef verið í sjónvarpinu, aðeins í uppistandi og allskonar eitthvað. Mér finnst þetta allt skemmtilegt! Ég er svona mest á ferðinni af okkur bræðrunum og leyfist kannski flest. 

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér í þremur orðum?
Glaður, fótógenískur og ástarmikill. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Kökur, rjómi, ís, smákökur, sleikipinnar eru fínir líka. Bræður mínir borða mikið af kjöti, bjúgum  og svoleiðis. Oft er ekki mikið eftir af svoleiðis mat handa mér. Við Kertasnýkir erum því svolítið svona í kolvetnaríka fæðinu (hlátur).

Hvað ertu gamall?
Það er mjög góð spurning. Ég er bara ekki alveg viss. Ég er svolítið gamall þó ég sé yngstur. Það hefur aldrei neinn sagt mér hvenær ég fæddist og ég man eiginlega ekkert eftir því. Við bræðurnir erum að minnsta kosti þrettán talsins. Þá er það bara svoleiðis að við eigum bara einn sameiginlegan afmælisdag á ári, einhvern tímann þegar við erum í góðu stuði. Þá segjum við: „já við eigum afmæli í dag“. Þá heilsumst við, dönsum kannski í kringum jólatré og fáum okkur eitthvað gott að borða. Það er mjög gott að gera þetta allt á einum degi. 

Hvað finnst þér best við Akureyri?
Hvað það er margt fólk hérna. Ég er svo félagslyndur! Ég fór á Glerártorg um daginn og það voru svo margir og allir heilsuðu mér og sungu með mér. Það var svo gaman. Mér finnst líka gott hvað það er oft mikill snjór hérna, þótt það eigi ekki alveg við núna. En þá líður mér vel. 

Hver eru áhugamál þín?
Allar listir eru mín áhugamál. Mér finnst gaman að syngja. Ég er sko tenór (tekur lagið), ég er með svo bjarta rödd. Mér finnst gaman að dansa líka. Semja ljóð og tónlist. Svo lærði  ég jóga í leikhúsinu. Þannig að ég er svona jógasveinn (hlátur). Þannig að ég hef áhuga á mörgu. Svo hef ég áhuga á fólki. Ég elska fólk!

Hver er að þínu mati fallegasti staðurinn á Íslandi?
Það er óskaplega fallegt heima hjá mér í Dimmuborgum. Sérstaklega í miklu frost þegar allar trjágreinar verða svona hrímaðar með hrauni á. Í desember, þegar sólin er lágt á lofti, þá myndast svona þoka. Frostþoka. Þá verður allt svo draumkennt. Það er svo fallegt! Stundum fæ ég pínu tár í augað við tilhugsunina. Mér finnast Dimmuborgir fallegastar í heimi! 

Hvernig er að eiga Grýlu og Leppalúða sem foreldra? Það er kannski efni í heila bók?
Það er sko efni í heilt leikrit skal ég segja þér! Grýla er ekki sú auðveldasta að búa með. Hún var einu sinni góð þegar ég var pínulítill. En svo fer ég eitthvað rosa mikið í taugatrekkjarann á henni. Og það er alveg sama hvað ég geri hún verður alltaf alveg brjáluð! Ég er alltaf að semja handa henni lög og sögur eða dansa fyrir hana. En hún verður alltaf bara pirruð. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera. Leppalúði hann er fínn. Mér semur alltaf mjög vel við pabba minn. Hann er ljúfur kall. Af því að Grýla öskrar svona mikið þá er hann kominn með fullt af hárum í eyrun, þannig að hann heyrir ekki henni. 

Hvað finnst þér um börn í dag?
Mér finnast þau frábær! Í gær komu krakkar og horfðu á mig. Þau voru svo skemmtileg! Ég bað þau um að syngja með mér og gera hreyfingar og svona. Þau voru ekkert feimin og gerðu bara allskonar og spjölluðu við mig. Ég var bara orðlaus. Mér finnast krakkar frábærir. 

Takk fyrir ánægjulegt spjall Stúfur!
 

Stúfur verður með jólaskemmtun í Samkomuhúsinu um helgina. Föstudaginn 9. des. kl. 18, laugardaginn 10. des. kl. 13 og sunnudaginn 11. des. kl. 13.