Listasafnið á Akureyri: Framkvæmdir og fjölbreytt starfsemi árið 2017

Framkvæmdir í Listasafninu á Akureyri munu hefjast í febrúar næstkomandi.  Þá verða meðal annars teknir í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á fjórðu hæð. Framkvæmdum mun ljúka um mitt ár 2018. Safnið verður áfram opið með fullri starfsemi sem mun að mestu fara fram í Ketilhúsi. Dagskrá ársins var kynnt í dag og undirritaði Hlynur Hallsson safnstjóri samstarfssamning við Ásprent/Stíl sem er einn af sex bakhjörlum safnsins. Prentaðri dagskrá ársins var í gær dreift í öll hús á Akureyri.

Fysta flokks aðstaða
Með framkvæmdunum fæst nýr og betri inngangur með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og barnavagna sem verður á jarðhæð ásamt safnbúð og notalegu kaffihúsi. Aðstaða fyrir safnkennslu batnar til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk sögusýningar um fjölbreytt atvinnu- og listalífi í Gilinu í áranna rás. Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild. Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson hjá Kurt og Pí hafa sérhæft sig í endurgerð verksmiðjuhúsnæðis þar sem virðing er jafnframt borin fyrir sögunni. Þeir hafa teiknað upp breytta nýtingu og nýtt skipulag þessa fyrrum iðnaðarhúsnæðis í Gilinu.

Með framkvæmdunum verða teknir í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á 4. hæð safnsins.

Með framkvæmdunum verða teknir í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á 4. hæð safnsins.

Starfsemi í byggingunni verður áfram fjölbreytt. Gallerý-ið Mjólkurbúðin verður á sínum stað sem og vinnustofur listamanna, listamannarekin sýningarými og gestavinnustofur. Í auknum mæli verður Ketilhúsið notað fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur. Listasafnið mun þannig laða að sér bæjarbúa og gesti í auknum mæli og af fjölbreyttari tilefni en fram til þessa.

Kynningarfundur var haldinn á Listasafninu á Akureyri í dag. Þar var dagskrá ársins 2017 kynnt ásamt þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á húsnæði safnsins en framkvæmdir hefjast í febrúar. 

Kynningarfundur var haldinn á Listasafninu á Akureyri í dag. Þar var dagskrá ársins 2017 kynnt ásamt þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á húsnæði safnsins en framkvæmdir hefjast í febrúar. 

Nína og Freyja opna árið
Sýningarárið 2017 byrjar með tveimur opnunum laugardaginn 14. janúar kl. 15. Á miðhæð Ketilhússins má sjá yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, en á svölunum opnar Freyja Reynisdóttir sýninguna Sögur. Síðan rekur hver sýningin aðra með ungum og upprennandi listamönnum, reynsluboltum og frumkvöðlum. Ljósmyndasýningar, stór sumarsýning á verkum norðlenskra listamanna og Gjörningahátíðin A! eru á sínum stað, ásamt einkasýningum vel þekktra listamanna á borð við Rúrí, Sigtrygg Bjarna Baldvinsson, Aðalstein Þórsson, Einar Fal Ingólfsson, Georg Óskar og Friðgeir Helgason. Í boði eru fjölbreyttar sýningar með ólíkum áherslum og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Listasumar mun eftir sem áður blómstra í Listagilinu með vorinu.

Vinir Listasafnsins
Fræðsla, fyrirlestrar, leiðsagnir og safnkennsla eru meðal þess sem Listasafnið hefur lagt aukna áherslu á undanfarin misseri og verður engin breyting þar á. Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Myndlistarfélagið, Menntaskólann á Akureyri, Gilfélagið, Háskólann á Akureyri og Myndlistarskólann á Akureyri. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Í febrúar verður stofnaður félagskapurinn Vinir Listasafnsins og er öllum áhugasömum boðið að taka þátt í því verkefni.

Helstu bakhjarlar Listasafnsins á Akureyri eru: Ásprent, Flugfélag Íslands, Geimstofan, Rub23, Norðurorka og Stefna.